Frá Íslandi til heimsins – Orkuveitan, ON og Carbfix á Heimssýningunni í Osaka

16. sep 2025

Orkuveitan

Mánudaginn 15. september tókum við í Orkuveitunni, ásamt ON og Carbfix, stolt þátt í Heimssýningunni í Osaka. Þrátt fyrir 40 gráðu hita og yfir 200.000 gesti þennan dag fylltist Norræni skálinn af áhugasömum gestum sem skráðu sig á okkar viðburð.

Viðburðurinn var settur með öflugu ávarpi frá Hönnu Katrínu Friðriksson, iðnaðarráðherra, sem lagði áherslu á hlutverk Íslands í orkuskiptum heimsins.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, hóf okkar dagskrá með því að fara í stuttu máli yfir sögu jarðhitans á Íslandi – frá frumkvöðlastarfi og fyrstu virkjunum til ofurdjúpra borana og útflutnings á íslenskri þekkingu og lausnum. Hann lagði áherslu á að við stöndum mitt í samkeppni þjóða um grænar lausnir og fjárfestingar:

„Það er mikilvægt að breiða út þá þekkingu og lausnir sem við erum að vinna að – því þær geta ekki aðeins hjálpað Íslandi heldur líka heiminum öllum. Í samkeppni þjóða skiptir máli að við Íslendingar nýtum forskot okkar, grípum tækifærin og eigum opið samtal við áhugasama aðila eins og þá sem við hittum hér í Osaka. Djúpborunarverkefnið, Carbfix-tæknin og Jarðhitagarðurinn hjá ON eru allt dæmi um nýsköpun sem við erum stolt af að leiða.“

World Expo Sævar Freyr


Í framhaldinu tóku fulltrúar okkar til máls:

  • Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni, sýndi hvernig jarðhiti er burðarstoð sjálfbærrar orkuvinnslu og kynnti sérstaklega ofurdjúpar boranir sem geta veitt aðgang að meiri orku úr dýpstu lögum jarðar og skapað ný tækifæri í orkunýtingu – bæði heima og erlendis.
  • Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, kynnti m.a. Jarðhitagarð fyrirtækisins sem lifandi miðstöð grænnar nýsköpunar. Þar fá sprotar og frumkvöðlar aðgang að jarðhitaauðlindinni til að þróa lausnir í hreinni orku, hringrásarhagkerfi og sjálfbærri framleiðslu.
  • Kristinn Ingi Lárusson, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Carbfix, útskýrði hvernig Carbfix-tæknin bindur koldíoxíð varanlega í bergi. Hann lagði áherslu á skalanleika og útflutningshæfi lausnarinnar og þann vaxandi áhuga sem nú er á samstarfi við alþjóðlega aðila.

Viðtökur voru vonum framar og japanskir aðilar úr orkuiðnaði og opinberum geira sýndu mikinn áhuga á því hvernig íslenskar lausnir geti aðlagast japönskum aðstæðum. Næstu daga eigum við fundi með fjölmörgum áhugasömum aðilum til að ræða samstarf og næstu skref.

Sjá nánar um viðburð okkar: From Iceland to the World