Sjálfbærnistefna

sjálfbærnistefna.png

Sjálfbærnistefnan er skuldbinding Orkuveitunnar um að sýna umhverfi, auðlindum og samfélagi virðingu. Í því skyni eru viðhafðir vandaðir stjórnarhættir, sem miða að stöðugum umbótum. Stefnan er grundvöllur farsælla ákvarðana og góðs samstarfs sem byggist á gegnsæi í upplýsingagjöf. Orkuveitan kallar eftir skoðunum hagsmunaaðila á því hvort starfsemi samstæðunnar sé sjálfbær og bregst við ábendingum með ábyrgum hætti. Sjálfbærnistefnan byggir á gildum Orkuveitunnar – frumkvæði, hagsýni, framsýni og heiðarleika – og er sett fram til samræmis við leiðarljós eigendastefnu fyrirtækisins.

Sjálfbærnistefnan er sett fram með eftirfarandi áherslum sem fylgt er eftir með skilgreiningu þýðingarmikilla sjálfbærniþátta. Móðurfélagið veitir faglegan stuðning og mótar sjálfbærnimarkmið fyrir samstæðuna í heild.

Loftslag og loftslagsáhætta

Orkuveitan nýtir bestu viðmið við mælingu kolefnisspors síns og stefnir á vottað nettó-núll kolefnisspor eigin starfsemi árið 2030 og einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar árið 2040. Þannig minnkar kolefnisspor samfélagsins alls.

Jafnframt er viðnámsþróttur samfélagsins efldur með aðlögun þjónustukerfanna að loftslagsbreytingum.

Orkuveitan bindur koldíoxíð í jörðu og býður öðrum að nýta þá tækni á viðskiptalegum grunni. Hvert fyrirtæki vinnur eftir eigin markmiðum og stýrir sinni loftslagstengdu áhættu.

Ábyrg auðlindanýting

Orkuveitunni er falin mikil ábyrgð á þeim auðlindum sem hún nýtir. Ábyrg nýting felst í því að komandi kynslóðir búi við samsvarandi tækifæri og núlifandi kynslóðir til að nýta auðlindirnar og að unnt sé að staðfesta að þannig sé að verki staðið. Því hámarkar Orkuveitan líftíma auðlinda, lágmarkar umhverfisáhrif og stendur með því vörð um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi. Fyrirtækið skuldbindur sig til þess að leita farsælla lausna þar sem auðlindanýting í almannaþágu er vegin og metin í samhengi við aðra hagsmuni. Orkuveitan mun verja auðlindirnar fyrir hættum og ágengni, vegna þeirrar ábyrgðar sem fyrirtækinu er falin.

Viðskiptavinir

Orkuveitan styður vaxandi samfélag, heimili og atvinnulíf með nýsköpun í orku, veitustarfsemi og kolefnisbindingu. Fyrirtækið vinnur með eigendum, öðrum sveitarfélögum, heimilum og atvinnulífinu í átt að sjálfbærri framtíð með gagnkvæman ávinning að leiðarljósi. Áreiðanlegur aðgangur að snjallri grunnþjónustu Orkuveitunnar á sanngjörnu verði er á meðal þess sem gerir Orkuveituna að aflvaka sjálfbærrar framtíðar og ánægju viðskiptavina í fremstu röð.

Losun og hringrás

Orkuveitan er brautryðjandi í hringrás í orku- og veitustarfsemi. Orkuveitan dregur úr losun mengandi efna eins og kostur er og leggur áherslu á rannsóknir og þróun til að geta nýtt bestu mögulegu lausnir þar sem hringrásarhugsun er í forgangi.

Góður samfélagsþegn

Orkuveitan er stórt fyrirtæki á landsvísu sem býr að þekkingu, reynslu og sögu. Orkuveitan skapar þekkingu og miðlar henni. Orkuveitan beitir áhrifum í virðiskeðjunni þar sem hvatt er til ábyrgrar umgengni við umhverfið, ábyrgrar neysluhegðunar og jákvæðra áhrifa á mannréttindi. Orkuveitan er leiðandi í nýsköpun og eftirsótt til samstarfs.

Ábyrgir starfshættir

Sem stórt og áberandi fyrirtæki í almannaþjónustu og almannaeigu skiptir máli að Orkuveitan sé til fyrirmyndar, m.a. um stjórnarhætti. Orkuveitan stuðlar að menningu þar sem virðing ríkir í samskiptum milli starfsfólks á öruggum og inngildandi vinnustað.

Orkuveitan hlítir öllum ákvæðum laga og reglugerða sem um starfsemina gilda.

Þýðingarmiklir sjálfbærniþættir

Orkuveitan hefur skilgreint eftirfarandi sjálfbærniþætti sem þýðingarmikla með hliðsjón af þeim meginreglum sem fram koma í sjálfbærnistefnunni. Orkuveitan setur sér markmið um þessa þætti og skilgreinir ábyrgð:

Loftslag og loftslagsáhætta

  • Losun og losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda eftir umfangi 1, 2 og 3 og binding gróðurhúsalofttegunda. (E1)
  • Viðnámsþol gagnvart loftslagsbreytingum (E1)
  • Framlag til orkuskipta (E1)

Ábyrg auðlindanýting

  • Líffræðilegur fjölbreytileiki og vistkerfi á eignarlandi og athafnasvæðum (E4)
  • Nýting á háhitasvæðum (E5)
  • Nýting á lághitasvæðum (E5)
  • Vernd neysluvatns (E3)

Viðskiptavinir

  • Afhendingaröryggi veitukerfa (S3)
  • Verð á sérleyfisþjónustu (S3)
  • Ánægja viðskiptavina (S4)
  • Sjálfbær varma- og raforkuöflun (E5)

Losun og hringrás

  • Aðgangur að fjölbreyttri notkun efnis- og orkustrauma (E5)
  • Losun frárennslis frá hreinsistöðvum og um yfirföll (E3)
  • Úrgangur, þ.á.m. fráveituúrgangur (E5)

Góður samfélagsþegn

  • Miðlun þekkingar (S3)
  • Veittir og mótteknir styrkir til vísinda og þróunar (S3)
  • Sjálfbær innkaup (S2)
  • Afstaða almennings til vörumerkja samstæðunnar (S3)

Ábyrgir starfshættir

  • Kynbundinn launamunur (S1)
  • Helgun starfsfólks (S1)
  • Vinnuslysatíðni (S1)
  • Gegnsæ skýrslugjöf samkvæmt viðurkenndum viðmiðum (G1)