Vegslóði lagður vegna undirbúnings vindorkurannsókna við Dyraveg í Ölfusi

25. jún 2025

Orkuveitan

Orkuveitan vinnur nú að undirbúningi rannsókna við Dyraveg í Ölfusi með það að markmiði að meta möguleika á nýtingu vindorku á svæðinu. Rannsóknirnar eru hluti af langtímaverkefni sem felur í sér ítarlegt mat á aðstæðum og áhrifum. Áætlað er að rannsóknir standi yfir í allt að tvö ár.

Í þeim felast meðal annars mælingar á vindafari, hljóðvist og sjónrænum áhrifum, sem og athuganir á náttúruvá og áhrifum á nærumhverfi og lífríki. Þá standa yfir sérstakar rannsóknir á fuglalífi á svæðinu í samstarfi við sérfræðinga á því sviði.

Orkuveitan vill árétta að engin ákvörðun hefur verið tekin um uppbyggingu í tengslum við nýtingu vindorku á svæðinu. Ef niðurstöður rannsókna benda til þess að möguleg uppbygging komi til álita þarf hún að fara í gegnum vandað umhverfismat og fá samþykki viðeigandi stjórnvalda og sveitarfélaga. Stærð og hönnun hugsanlegra vindmylla liggur ekki fyrir og mun ráðast af niðurstöðum rannsókna og mati á aðstæðum.

Orkuveitan hefur það hlutverk að tryggja örugga og sjálfbæra orkuöflun og skoðar af ábyrgð möguleika á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Undirbúningsvinna sem þessi er nauðsynleg til að ákvarðanir séu teknar á grundvelli traustra gagna og með hagsmuni samfélags og náttúru að leiðarljósi.

Nánari upplýsingar má finna hér.

dyravegur.jpg
Í tengslum við rannsóknirnar hefur verið lagður vegslóði við Dyraveg sem sést hér á myndinni. Slóðinn er nauðsynlegur til að koma búnaði á rannsóknasvæðið og var lagður með sérstakri aðferð sem Orkuveitan hefur þróað og var meðal annars nýtt við framkvæmdir á virkjanasvæðum við Hengilinn. Aðferðin miðar að því að draga eins og kostur er úr umhverfisraski með því að nýta jarðveg og gróður sem fyrir er á svæðinu og forðast röskun viðkvæmra svæða. Slóðinn er grafinn lítillega niður þannig að yfirborð hans falli að landslaginu í kring. Gróðurþekjan er fjarlægð og henni haldið til haga (líkt og sést á myndinni). Hún er síðan endurlögð í vegkanta þannig að hún hylji vegaxlir og nýtt til yfirborðsfrágangs í kringum slóðann. Umframgróður er jafnframt notaður til að græða upp nálæg rofsvæði. Aðgerðirnar ganga lengra en hefðbundin veglagning. Þær miða að því að draga úr sjónrænum áhrifum, láta slóðann falla sem best að náttúrulegu landslagi og nýta gróðurinn sem annars hefði farið til spillis.