9. sep 2025
OrkuveitanOrkuveitan hefur hafið undirbúningsframkvæmdir vegna borana á fyrirhuguðum rannsóknarholum í Meitlum, innan sveitarfélagsins Ölfuss. Framkvæmdirnar fela í sér lagningu vegslóða og borteiga. Áætlað er að fyrsta rannsóknarholan verði boruð haustið 2025 en borun verður í höndum fyrirtækisins North Tech Drilling.
„Við höfum sett okkur skýr markmið um að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar og leiðandi í orkuskiptum. Þessar rannsóknir eru hluti af þeirri vegferð og miða að því að tryggja áframhaldandi orkuöflun til að mæta ört vaxandi þörf samfélagsins og stuðla að ábyrgri auðlindanýtingu í sátt við umhverfið. Við hlökkum til samstarfsins og þetta verkefni er skýr vísbending um að við ætlum að sækja fram í orkuöflun og tryggja nægt framboð af sjálfbærri orku til framtíðar,“ segir Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni.
Tilgangur framkvæmdanna er að kanna hvort nýtanlegan jarðhita sé að finna á svæðum þar sem yfirborðsrannsóknum er lokið, innan fyrirliggjandi nýtingarleyfis Orkuveitunnar.
Með rannsóknarborunum fæst heildræn mynd af stærð og eðli auðlindarinnar og vísbendingar um hvort hún henti til orkunýtingar.
Nánar má lesa um verkefnið hér.