Orkuveitan tekur þátt í verkefninu LIFE ICEWATER

13. des 2024

Orkuveitan

Orkuveitan, Veitur og Orka náttúrunnar taka þátt í innleiðingu á vatnaáætlun í verkefninu LIFE ICEWATER. Verkefnastjórn er í höndum Umhverfisstofnunar en að auki taka 18 samstarfsaðilar þátt í verkefninu.

Verkefnið ber yfirskriftina LIFE ICEWATER. Verkefninu er ætlað að:

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns

LIFE ICEWATER skapar tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslu með þverfaglegu samstarfi margra aðila. Markmiðið er að bæta vatnsgæði um allt land og hámarka ábata samfélagsins af þeim aðgerðum.

Styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman nemur samtals um 5,8 milljörðum króna. LIFE-áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60%, eða samtals 3,5 milljarða króna, sem dreifast á samstarfshópinn. Verkefnin verða unnin á árunum 2025–2030.

Lilja Tryggvadóttir tók þátt í styrkumsókninni fyrir hönd Orkuveitunnar: „Ég er einstaklega ánægð og þakklát að hafa fengið að taka þátt í þessari gríðarlega mikilvægu styrkumsókn um þetta góða málefni með öllum snillingunum hér innanhúss sem og samstarfsaðilunum í verkefninu. Þetta eru búin að vera skemmtileg tvö ár í umsóknarferlinu og gaman að sjá styrkinn sigla í höfn, ekki bara fyrir okkur sem vinnum í kringum málefnið heldur fyrir samfélagið allt.“

Verkefninu er skipt í sjö hluta en aðkoma Orkuveitunnar snýr að því að taka þátt í fræðslu og vitundarvakningu um fráveituna og grunnvatnið okkar allra, ásamt framkvæmdum sem styðja við innleiðingu vatnatilskipunar. Veitur munu koma að fráveitulausn við Vatnsmýrina með áherslu á Tjörnina en auk þess munu Veitur vinna að upplýsingasöfnun um nýtingu grunnvatns með snjallmælum. Þá verður grunnvatn einnig áhersla hjá Orku náttúrunnar en þar verða auknar mælingar og aðgerðir til að minnka áhrif losunar affallsvatns á Nesjahraun og Þingvallavatn.

Dagrún Árnadóttir mun leiða styrkverkefnið fyrir hönd Orkuveitunnar: „Ég hlakka til að taka þátt í þessari vegferð ásamt öllum þeim öflugu teymum innan Orkuveitunnar, Orku náttúrunnar og Veitna sem munu vinna að þessu mikilvæga verkefni í átt að ábyrgari nýtingu auðlinda okkar og bættra vatnsgæða fyrir samfélagið.“

Sjá yfirlit aðgerða undir hverjum verkhluta:

LIFE ICEWATER

Samstarfsaðilar auk okkar og Umhverfisstofnunar í verkefninu eru:

Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytið og Veðurstofa Íslands, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélaginu Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp og Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Picture2.png