Orkuveitan í fararbroddi grænnar umbreytingar á Grundartanga

14. nóv 2025

Orkuveitan
Árni Hrannar Haraldsson framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Álfheiður Ágústsdóttir framkvæmdastjóri Elkem á Íslandi, Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar, Edda Sif Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix og Guðjón Steindórsson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Grundartanga.
© Einar Örn

Orkuveitan og dótturfélögin Orka náttúrunnar og Carbfix verða í lykilhlutverki í þeirri miklu umbreytingu sem framundan er á Grundartanga, þar sem stefnt er að stórauknum umsvifum loftslagsvænnar atvinnustarfsemi. Verkefnið felur í sér nýja varmavirkjun, nýtingu glatvarma, föngun og bindingu kolefnis og uppbyggingu fjölbreyttrar nýsköpunarstarfsemi sem styður við græna framtíð.

Viljayfirlýsing um samstarfið var undirrituð í gær af Jóhanni Páli Jóhannssyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Orkuveitunni, Elkem Íslandi, Þróunarfélagi Grundartanga og Orku náttúrunnar og Carbfix.

Samstarfið er mikilvægt skref í átt að sjálfbærri atvinnuuppbyggingu og nýtingu íslenskra orkuauðlinda til framtíðar.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar:
„Þetta er frábært dæmi um hvernig við hjá Orkuveitunni og dótturfélögunum okkar nýtum auðlindir Íslands á ábyrgan hátt og sköpum raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið. Með því að tengja saman orkuvinnslu, nýsköpun og kolefnisbindingu erum við að leggja grunn að sjálfbærri atvinnuuppbyggingu sem eykur samkeppnishæfni íslensks iðnaðar. Þetta verkefni getur skapað hundruð starfa, milljarða í tekjur og styrkt stöðu Íslands sem leiðandi lands í grænni tækni og hringrásarhagkerfi.“

Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix:
„Þetta er rökrétt framhald af samstarfi sem við höfum þegar hafið á Grundartanga. Með því að tengja saman tækni Carbfix við orkuvinnslu og nýtingu glatvarma skapast raunhæfur grundvöllur til að draga verulega úr losun kolefnis og byggja upp nýjar atvinnugreinar.“

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar:
„Þekkingin sem við höfum byggt upp í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði mun nýtast vel í uppbyggingu varmavirkjunar á Grundartanga. Þar erum við að nýta orkuauðlindir á ábyrgan og ábatasaman hátt — og það sama gildir hér.“

Framkvæmdirnar á Grundartanga eru liður í stefnu stjórnvalda um að festa í sessi samkeppnishæfa og loftslagsvæna stóriðju á Íslandi. Með þátttöku Orkuveitunnar, ON og Carbfix er tryggt að uppbyggingin byggist á þekkingu, ábyrgð og nýsköpun sem þjónar samfélaginu til lengri tíma.

Þá var einnig greint frá því í gær að Loftslags- og orkusjóður muni veita styrki til nýsköpunar og tækniþróunar sem stuðla að samdrætti í losun frá slíkum iðnaði. Beindi ráðherra því til stjórnar sjóðsins að auglýsa styrki til slíkra verkefna fyrir allt að 400 milljónir króna fyrir árslok 2025.