ON Power semur við Norðurál um raforkusölu

16. apr 2025

Orkuveitan
Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga Jesse Gary, forstjóri Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls
© BLIK Studio

Fulltrúar Orkuveitunnar, ON Power – dótturfyrirtækis alfarið í eigu Orkuveitunnar – og Norðuráls skrifuðu í dag undir sölusamning á 150 megavatta raforku til álversins á Grundartanga. Samningurinn er til allt að fimm ára og leysir af hólmi eldri raforkusölusamninga milli Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls sem renna út á næstu árum. Samkomulagið felur einnig í sér að Orkuveitan og Norðurál leggja af málarekstur fyrir gerðardómi vegna mismunandi túlkunar aðila á ákvæðum fyrri samnings. 

Samningurinn, sem gengur í gildi á fjórða ársfjórðungi 2026, mun hafa talsvert jákvæð áhrif á afkomu raforkusölu, umfram það sem kemur fram í fjárhagsspá Orkuveitunnar fyrir árin 2025-2029, sem birt var með tilkynningu í Kauphöll í október 2024. Næsta fjárhagsspá verður birt á haustmánuðum. 

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir það nú hafa gengið eftir sem hann sagði við birtingu fjárhagsspárinnar, að stefnt væri að því að betra verð fengist fyrir raforku til stórnotenda. „Um leið og samstarf við mikilvægan viðskiptavin og starfsemi sem skapar verðmæti fyrir samfélagið er framlengt opnast ný tækifæri fyrir Orkuveituna að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar,“ segir Sævar Freyr.