7. nóv 2025
Orkuveitan
Við erum gríðarlega stolt af þeim frábæra árangri sem Elliðaárstöð náði í gær þegar hún hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2025. Svæðið var endurhannað af Tertu fyrir Orkuveituna með fræðslu, samveru, útiveru og leik í huga. Elliðaárstöð er lifandi áfangastaður í hjarta borgarinnar og þar má fræðast um sögu staðarins, orkuna í náttúrunni og veiturnar, jafnt úti sem inni.
Í Elliðaárstöð geta gestir heimsótt fyrstu Rafstöðina í Reykjavík sem hefur í dag fengið nýtt hlutverk. Í stað þess að framleiða raforku eru gestir og skólahópar fræddir um orku og auðlindir og er lögð áhersla á að virkja sköpunarkraftinn og hugvitið.
Gestastofa Elliðaárstöðvar sem áður var straumskiptistöð er opin almenningi alla virka daga. Gestastofan býður upp á móttöku og sýningarrými, þar sem sýndar eru hinar ýmsu smástundasýningar, en þar eru einnig fundarrými sem hægt er að leigja í gegnum vef Elliðaárstöðvar.
Stöðvarstjórahúsið var reist árið 1921 og var lengst af heimili rafveitustjóra. Í dag hefur heimilið fengið nýtt hlutverk og hýsir nú sýningu Heimili veitna þar sem gestir fá að kynnast leyndardóm veitnanna. Á efri hæð eru fundar- og skrifstofurými til útleigu.
Í Elliðaárstöð hefur nú verið komið fyrir vatnsleikjagarðuri á stóru útileiksvæði fyrir börn þar sem þau geta fræðst um orku og auðlindir dalsins í lifandi leik. Garðurinn er eftirlíking af Elliðaánum þar sem rennibrautin sjálf er Árbæjarstíflan og Elliðaárhólminn er hóllinn sem áin rennur sitt hvoru megin við.
Gufuborinn Dofri boraði eftir heitu vatni á lághitasvæðum og gufu á háhitasvæðum á árunum 1958-1991. Nú hefur Dofri sest í helgan stein í Elliðaárstöð þar sem hann mun um ókomna framtíð minna gesti dalsins á framsýni liðinna tíma, það framfaraskref sem stigið var í loftslagsmálum með tilkomu hitaveitunnar og þau samfélagslegu lífsgæði sem hitaveitan gefur okkur allt árið um kring.
Við gufuborinn Dofra má einnig finna borholuhús sem var upphaflega hannað fyrir jarðhitavinnslu Orkuveitunnar og síðar fyrir niðurdælingarholur Carbfix en það hefur þjónað mikilvægu hlutverki í því að verja borholur gegn veðrum og vindum. Húsið hefur öðlast nýtt hlutverk sem upplifunar- og sýningarrými en það hefur nú þegar skapað sér stöðu sem táknmynd nýsköpunar í loftslagsaðgerðum Carbfix.
Að lokum eru það húsin sem áður hýstu smiðju og fjós, en þar er nú kaffihúsið Elliði.
Við hvetjum öll til að kíkja á Elliðaárstöð, fræðast um auðlindirnar okkar og hvernig þær hafa verið nýttar á ábyrgan hátt og skapað lífsgæði fyrir samfélagið okkar.
Líkt og árnar voru áður virkjaðar er nú lögð áhersla á að virkja fólk og hugvit í Elliðaárstöð.