3. jan 2025
OrkuveitanArna Pálsdóttir, forstöðukona nýsköpunar auðlinda, og Baldur Brynjarsson, verkefnastjóri nýsköpunarverkefna, hjá Rannsóknum og nýsköpun Orkuveitunnar, voru í viðtali við tímaritið Vélabrögð (tímarit véla-, iðnaðar- og efnaverkfræðinema Háskóla Íslands) til að segja frá starfi sínu hjá Orkuveitunni og verkefnum sem þau eru að vinna að. Greinina má lesa hér að neðan.
Þau Arna og Baldur starfa bæði hjá Rannsóknum og nýsköpun hjá Orkuveitunni. Arna frá árinu 2019 og Baldur síðan 2020 eftir að hafa verið þar í sumarstarfi í tvö sumur. Þau eiga það sameiginlegt að hafa heillast af efnaverkfræði og eru alla daga að vinna í því að finna lausnir við flóknum áskorunum. Meðal annars velta þau fyrir sér hvernig hægt er að blanda saman heitu vatni frá virkjunum ON og heitu vatni af lághitasvæðunum sem gæti skipt sköpum þegar kemur að nýtingu hinnar dýrmætu auðlindar sem heita vatnið er. Okkur lék forvitni á að vita meira um þau Baldur og Örnu og settumst niður með þeim á köldum mánudagsmorgni í febrúar, þegar fátt annað hefur verið í umræðunni en einmitt heita vatnið – á Suðurnesjum.
Það fyrsta sem okkur langaði að vita er hvaða menntun þau hafa?
„Ég er með B.S. gráðu frá Háskóla Íslands en síðan fór ég í Cornell University í Bandaríkjunum og kláraði bæði M.S og Ph.D í efnaverkfræði. Ég var nú ekki alveg viss um hvað mig langaði að gera þegar ég hóf háskólanám. Áður en ég valdi nám þá tók ég bækling með öllu því sem kennt var í HÍ og HR í grunnnámi og strikaði út það sem ég vildi ekki læra. Ég stóð eftir með stærðfræði, efnafræði, efnaverkfræði, málvísindi og íslensku,“ segir Arna sem viðurkennir að hún hafi verið töluvert spenntari fyrir raunvísundum en málvísindum „og fannst efnaverkfræði hljóma eins og skemmtileg blanda af efnafræði og stærðfræði þannig að hún varð fyrir valinu.“
Baldur á mjög svipaða sögu og Arna þegar kemur að vali á námsleið. „Ég kláraði menntó og eyddi öllum mínum peningum í langt lestarferðalag, kom svo heim skítblankur og settist með alla bæklinga frá HÍ og HR sem ég fann og byrjaði að útiloka. Þá sat ég eftir með efnafræði og vélaverkfræði. Á endanum valdi ég efnafræði án þess að vera alveg viss að það væri rétt val, en þegar ég byrjaði í náminu fann ég fljótt að það átti vel við mig og að efnaverkfræðihlutinn (var ekki kenndur þá í HÍ) myndi bara koma seinna. Í náminu sogaðist ég inn í heim vísindamiðlunar og hélt síðan áfram eftir nám að kenna í nokkur ár, allt frá leikskóla og grunnskóla upp í háskóla um vísindi, efnafræði og, á einhvern ótrúlegan hátt, vindmyllur.“
Baldur fór síðan til Hollands í meistaranám í TU Delft að læra efnaverkfræði.
Þau Arna og Baldur eru sammála um að menntunin hafi nýst þeim afar vel í þeirra störfum og í raun séu efnaverkfræðingur úti um allt. „Á Íslandi erum við aðallega í orku- og veitugeiranum og hjá lyfja- og efnafyrirtækjum en erlendis er líka töluvert af efnaverkfræðingum í alls konar hátæknigeira, t.d. hjá Intel,“ segir Baldur og Arna bætir við:
„Svo er náttúrulega slatti af efnaverkfræðingum sem vinna í matvælageira, t.d. við bruggun og bjórgerð og í því að búa til besta kaffi í heimi.“
Ein hitaveita og „magnesíumsílíkat“
Hjá Rannsóknum og nýsköpun hjá Orkuveitunni fá þau Baldur og Arna að fást við mörg stór verkefni. Eitt þessara verkefna sem þau hafa sett ómældan tíma í að undanförnu er svokallað „Blöndunarverkefni“ sem gengur reyndar undir nafninu Ein hitaveita og snýr að sameiningu hitaveitukerfanna á höfuðborgarsvæðinu.
Hitaveitukerfið er risastórt og er í dag tvískipt, með annars vegar vatni af lághitasvæðum og hins vegar með vatni frá háhitavirkjunum. Lághitasvæðin eru frábært toppafl og virkjanirnar grunnafl kerfisins „en vegna þess að við getum ekki blandað vatni frá lághitasvæðum og virkjunum saman getum við ekki nýtt okkur grunnafls- og toppaflshugsunina heldur byggjum við upp forða af báðum gerðum af vatni jafnhendis“ segir Arna.
„Blöndunarverkefnið“ snýr því í grunninn að breytingu á framleiðslu heits vatns í virkjunum þannig að hægt sé að framleiða vatn sem er eins og vatn frá lághitasvæðunum. Breytingin mun fela í sér uppbyggingu á einu stærsta iðnaðarferli landsins þar sem Orka náttúrunnar mun framleiða nýja gerð af vatni en einnig framleiða nýja vöru til sölu sem nefnist „magnesíumsílíkat.“
„Framleiðsluferlið mun byggja á því sem kallast „fluidized bed reactor“ á skalanum 1000 l/s í Hellisheiðarvirkjun og 1500 l/s í Nesjavallavirkjun. Töluverður fjöldi efnaverkfræðinga hefur komið að verkefninu nú þegar hjá Orkuveitunni, COWI (Mannvit) og Royal Haskoning í Hollandi og við verðum ábyggilega fleiri þegar fram í sækir,“ segir Baldur.
Stuðlar að stórbættri auðlindanýtingu
„Verkefnið er gríðarlega mikilvægt þar sem það stuðlar að stórbættri auðlindanýtingu Orkuveitunnar, bæði á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og í virkjunum Orku náttúrunnar í Hengli. Þar sem við munum reka kerfið með grunnafli og toppafli getum við látið lághitasvæðin endast lengur til framtíðar, stóraukið nýtingu heits vatns frá virkjunum og þar með minnkað umhverfisáhrif þeirra og framleitt nýja vöru sem selja má á markaði,“ segir Arna.
Hún bætir því við að ekki megi gleyma því að verkefnið bæti ekki einungis nýtingu heldur sé það afar arðbært.
„Við höfum metið það sem svo að við spörum 2,1 milljarða í orkuöflun fyrir hitaveitu á næstu árum með því að fara í þetta verkefni í stað annarra og þá hefur ekki verið tekið tillit til sparnaðar við uppbyggingu hitaveitukerfis.“
Baldur segir að efnaverkfræðin líkt og flest önnur verkfræði snúist að miklu leyti um að finna lausnir á vandamálum. „Verkfræðinámið miðar að því að kenna nemendum að leysa vandamál. Verkefnin í náminu eru æfing fyrir það að fá óþekkt vandamál í framtíðinni og leysa þau á skipulagðan hátt, tiltölulega óháð viðfangsefninu.“
Risastór verkefni sem krefjast nýskapandi hugsunar
Þau Arna og Baldur segja afar spennandi að vinna hjá Orkuveitunni og að enginn vinnudagur sé eins. „Svo er bara mjög gaman í vinnunni líka og við fáum að vera mjög skapandi í því hvernig við leysum verkefnin hjá Orkuveitunni. Ég held að margir fatti ekki hversu mikið rými við höfum til þess að vera kreatíf í því að finna lausnir,“ segir Baldur.
Þau segja að fram undan séu stór og mikil verkefni og nefna þar sérstaklega uppbyggingu vindorku sem verður hluti af starfseminni á næstu árum og þar bíði ærin verkefni.
„Einnig erum við að horfa til öldu-, sjávarfalla- og birtuorku, orkugeymslu og rafeldsneytisframleiðslu. Þannig að það eru mörg skemmtileg verkefni fram undan fyrir verkfræðinga, og efnaverkfræðinga, framtíðarinnar.“
Þá nefnir Arna sérstaklega nýja stefnu í fráveitumálum á Íslandi sem mun skipta sköpum. „Við höfum hingað til sent allt skólp út í sjó á Íslandi án mikillar hreinsunar eða meðferðar þó að sveitafélögin séu komin mislangt í þeim efnum. Til framtíðar verður gerð krafa um mun meiri meðferð á skólpi og þá þarf að hanna og þróa hreinsunarferli. Hægt er að líta að mörgu leyti til reynslu erlendis frá en það sem vantar er fólk á Íslandi með menntun og reynslu á þessu sviði og fólk sem er nýskapandi í hugsun og tilbúið til þess að takast á við glænýjar og stórar áskoranir.“
Þau nefna að fjárfestingar sem þurfi fyrir þessi verkefni á næstu árum hjá Veitum og Orkuveitunni hlaupa á um 100 milljörðum.
„Þannig að það er til mikils að vinna að fá gott fólk með viðeigandi menntun inn og viðeigandi menntun er klárlega verkfræði og efnaverkfræði.“
Greinin birtist fyrst í tímaritinu Vélabrögð.