Græn fjármögnun

Græn fjármögnun vísar til fjármögnunar sem styður umhverfisvæn verkefni, sjálfbæra þróun og loftslagsvænar lausnir. Markmiðið er að beina fjármagni til verkefna sem stuðla að jákvæðari umhverfisáhrifum.

Orkuveitan hóf útgáfu grænna skuldabréfa árið 2019. Árið 2021 var settur fram rammi fyrir græna fjármögnun sem markaði þá stefnu að öll fjármögnun innan samstæðunnar yrði græn.

Árið 2024 var græni fjármögnunarramminn uppfærður með hliðsjón af Flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (EU Taxonomy) til að auka samræmi við alþjóðleg viðmið um sjálfbæra fjármögnun.

Grænn fjármögnunarrammi

Grænn fjármögnunarrammi Orkuveitunnar byggir á þeirri stefnu að öll fjármögnun samstæðunnar, hvort sem um ræðir skuldabréfaútgáfu eða aðra lántöku, verði græn. Núverandi rammi hefur hlotið óháð mat frá S&P Global Ratings, sem gaf honum einkunnina Dökk grænn og metur hann að hluta til í samræmi við EU Taxonomy.

Öll fjárhagsleg starfsemi sem Orkuveitan hefur skilgreint í samræmi við EU Taxonomy uppfylla skilyrði um verulega þátttöku í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, valda ekki verulegu tjóni og eru í samræmi við lágmarksverndarkröfur flokkunarreglugerðar. Fjármögnunarramminn nær einnig yfir verkefni sem tengjast beint uppbyggingu, uppsetningu, stækkun og viðhaldi ljósleiðarakerfa. Slík verkefni falla ekki undir núverandi útgáfu EU Taxonomy og því er metið að ramminn sé að hluta til í samræmi við Flokkunarreglugerð.

Græni fjármögnunarramminn fylgir einnig svokölluðum Green Bond Principles, sem eru viðmið gefin út af ICMA – Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði. Ramminn byggir á fjórum meginstoðum:

  • Skilgreiningu á flokkum grænna verkefna
  • Skýru valferli fyrir græn verkefni
  • Meðferð og rekjanleika fjármuna
  • Reglulegri og gagnsærri skýrslugjöf til fjárfesta

Græn skuldabréf

Orkuveitan og dótturfélög hennar hafa um langt skeið unnið markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum starfsemi sinnar og stuðla að sjálfbærri þróun. Útgáfa græns fjármögnunarramma og þeirra skuldabréfa sem undir hann falla er skýr staðfesting á þeirri stefnu. Markmiðið er að fjármagna eða endurfjármagna verkefni sem styðja við ábyrga og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, þar á meðal verkefni sem stuðla að kolefnisbindingu, loftslagsvænum orkuskiptum og verndun vistkerfa.

Orkuveitan skuldbindur sig að gefa út áhrifaskýrslu grænnar fjármögnunar ár hvert þar sem greint er frá ráðstöfun þess fjármagns sem tekið er að láni undir hatti fjármögnunarrammans. Skýrslurnar eru hér: