Fjármál Orkuveitunnar í traustum farvegi

25. ágú 2025

Orkuveitan

Orkuveitan var rekin með 4,9 milljarða króna hagnaði fyrstu sex mánuði ársins. Þetta kemur fram í árshlutareikningi samstæðunnar, könnuðum af endurskoðendum, sem samþykktur var af stjórn í dag. Til Orkuveitunnar teljast, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

Þessi niðurstaða er nokkuð betri en á sama tímabili fyrra árs, þegar hagnaður nam 4,3 milljörðum króna. Á fyrri helmingi ársins jukust rekstrargjöld um 340 m.kr. en rekstrartekjur um 973 m.kr. á sama tímabili. Það gerist þrátt fyrir að samdráttur hafi orðið í tekjum á 2. ársfjórðungi milli ára.

Verulegar fjárfestingar í innviðum

Veigamesta skýring samdráttar tekna á 2. ársfjórðungi eru minni tekjur hitaveitunnar, sem er umfangsmesti veiturekstur innan samstæðunnar. Nauðsynlegt er þó að halda áfram að afla aukins forða svo hitaveitan geti mætt vaxandi álagstoppum. Verulegar fjárfestingar standa yfir hjá fyrirtækjunum í samstæðunni og námu 12,9 milljörðum króna á fyrri hluta ársins. Veigamestar eru fjárfestingar í viðhaldi og uppbyggingu veitukerfa – þar á meðal styrkingu rafdreifikerfisins vegna orkuskipta – en einnig í undirbúningi nýrrar orkuöflunar.

Veltufé frá rekstri, sem m.a. stendur undir þessum fjárfestingum, hélt áfram að aukast miðað við fyrri ár og nam 15,9 milljörðum króna fyrstu sex mánuði ársins. Háir vextir af lánum til fjárfestinga setja áfram mark sitt á afkomu samstæðunnar en viðræður standa yfir um hagstæða fjármögnun þeirra fjölbreyttu grænu verkefna sem Orkuveitan hefur á prjónunum.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri:

Það er góður gangur í þeim grænu uppbyggingarverkefnum sem Orkuveitan stendur fyrir. Á fyrri hluta þessa árs var það stóra skref stigið að nú er starfsemi Hellisheiðarvirkjunar Orku náttúrunnar nánast kolefnissporlaus og skilar það eitt og sér um 10% af markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Binding Carbfix við virkjunina er ekki bara á koldíoxíði frá heldur líka brennisteinsvetni sem sparar rekstrinum stórar fjárhæðir. Þá eru hafnar rannsóknir á hugsanlegri nýtingu vindorku við Dyraveg á Mosfellsheiði, frekari jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og kolefnisbindingu við Þorlákshöfn í Ölfusi.

Það er gott að búa að stöndugum og stöðugum rekstri þegar ráðist er í verkefni af þessu tagi enda eru fjárfestingar í þróun og nýsköpun áhættusamar í eðli sínu; væri niðurstaðan vituð þyrfti ekkert að rannsaka.

Á sama tíma erum við að efla og treysta veitukerfin öll. Uppbygging er talsverð á starfssvæðum okkar. Oft er hún innan um eldri byggð sem er hagstæðara í heildarsamhenginu en er oft dýrt fyrir Veitur.

Við erum sátt við afkomuna á fyrri helmingi ársins og höldum ótrauð áfram að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar.