1.gr - Markmið
1.1 Orkuveitan er orku- og veitufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum almennings. Framtíðarsýn Orkuveitunnar er að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar og skapandi orku í samfélaginu. Tilgangur Vísinda- og frumkvöðlasjóðs Orkuveitunnar (VOR) er að styðja við þessa framtíðarsýn. Hér er hægt að lesa nánar um stefnu Orkuveitunnar.
1.2 Markmið sjóðsins eru:
2.gr - Umsóknir
2.1 Auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn einu sinni á ári og skal frestur til að skila inn umsóknum ekki vera skemmri en 30 dagar.
2.2 Umsóknum skal skilað á rafrænu formi í gegnum umsóknagátt á vef Orkuveitunnar ásamt öllum fylgiskjölum. Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.
2.3 Heimilt er að óska eftir nánari upplýsingum frá umsækjendum en þeim sem koma fram í umsókn.
2.4 Heimilt er að leita sérfræðiþekkingar við mat á umsóknum ef talin er þörf á.
3.gr - Nemendastyrkir
3.1 Auglýst er eftir umsóknum frá tæknifræði-, meistara- og doktorsnemum um styrki í þessum flokki. Nemendur þurfa að vera með staðfesta skólavist sem og staðfestan leiðbeinanda til að vera gjaldgengir fyrir styrk úr sjóðnum. Í umsókninni gera nemendur grein fyrir námsárangri sínum og því rannsóknarverkefni sem þeir eru að vinna að eða hyggjast fást við í námi sínu.
3.2 Styrkir eru veittir vegna launakostnaðar nemans og annars rannsóknarkostnaðar sem er beintengdur verkefninu, s.s. efni til tilrauna. Ekki er veittur styrkur vegna tækjakaupa, ferða á ráðstefnur.
3.3 Upphæð námsstyrkja tekur mið af áætluðum kostnaði sem talinn er fram í kostnaðaráætlun umsóknarinnar. Hámark styrkja til tæknifræði- og meistaranema er 1.000.000 kr. og fyrir doktorsnema 3.000.000 kr. en sjóðurinn áskilur sér heimild til að veita styrki sem eru lægri en það.
3.4 Við mat á umsóknum er litið til námsferils umsækjanda og hversu vel áætlað rannsóknarverkefni fellur að tilgangi og markmiðum sjóðsins ásamt gæðum umsóknar.
4.gr - Verkefnastyrkir
4.1 Auglýst er eftir umsóknum frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum í þessum flokki.
4.2 Styrkir eru veittir til hluta þess kostnaðar sem hlýst af vinnu sérfræðinga og annars rannsóknarkostnaðar sem er beintengdur verkefninu, s.s. efni til tilrauna. Ekki er veittur styrkur vegna tækjakaupa, ferða á ráðstefnur og því um líkt.
4.3 Upphæð verkefnastyrkja tekur mið af áætluðum kostnaði sem talinn er fram í kostnaðaráætlun umsóknarinnar. Verkefnastyrkir geta numið að hámarki 70% af heildarkostnaði verkefnis. Hámark verkefnastyrkja eru 5.000.000 kr. en sjóðurinn áskilur sér heimild til að veita styrki sem eru lægri en það.
4.4 Við mat á umsóknum er litið til hversu vel verkefni fellur að tilgangi og markmiðum sjóðsins og gæðum umsóknar. Jafnframt er litið til trúverðugleika kostnaðar- og tímaáætlunar verkefnisins og hvort verkefnið njóti styrkja annarra sjóða .
5.gr - Mat á umsóknum, samningar og eftirfylgni
5.1 Sérfræðingar, á þeim sviðum sem rannsóknarefni umsókna tilheyra, rýna og meta umsóknir sem berast sjóðnum. Þeirri rýni er skilað til fagráðs sjóðsins sem ber saman umsóknir og gerir tillögur að úthlutun úr sjóðnum.
5.2 Stjórn sjóðsins fer yfir tillögur fagráðsins og ákvarðar úthlutun. Í stjórn sitja forstjóri Orkuveitunnar, sem formaður stjórnar, forstöðukona rannsókna og nýsköpunar, forstöðukona frumkvöðlaseturs og vísindamiðlunar, ásamt Einari Mantyla, frumkvöðli og forstjóra Auðna tækitorgs.
5.3 Stjórn sjóðsins skal gera samning við styrkþega um greiðslu styrks og skuldbindingar styrkþega, s.s. varðandi lokaskýrslur. Sé verkefni ekki hafið innan 6 mánaða frá styrkveitingu, fellur styrkur niður, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að mati stjórnar. Sé skýrslum ekki skilað eða þær ekki fullnægjandi er lokagreiðsla ekki greidd út og sjóðnum heimilt að kalla eftir endurgreiðslu ef rök eru fyrir því.
5.4 Stjórn sjóðsins er heimilt í slíkum samningi að skilyrða styrk þannig að hlutdeild í tekjustreymi sem skapast vegna verkefnisins eða einkaleyfa á uppgötvunum renni til sjóðsins.
5.5 Styrkþegar skulu skila lokaskýrslu verkefnis samkvæmt skilmálum styrksamnings.
5.6 Styrkþegar skulu vera viðbúnir að kynna verkefni sitt á viðburðum Orkuveitunnar sé þess óskað.
6.gr - Trúnaður
6.1 Stjórn og starfsmenn sjóðsins skulu gæta fyllsta trúnaðar um þær upplýsingar sem fram koma í umsóknum.
6.2 Umsóknir og matsgögn verða vistuð á öruggu vefsvæði.
6.3 Stjórn sjóðsins er heimilt að greina opinberlega frá heiti verkefnis, útdrætti verkefnis, nafni styrkþega og styrkupphæð.
7.gr - Annað
7.1 Stjórn sjóðsins skal gefa stjórn Orkuveitunnar skýrslu um styrki úr sjóðnum, fjárhagsstöðu hans og framvindu styrktra verkefna þegar eftir er leitað.
7.2 Stjórn sjóðsins skal rýna úthlutunarreglur árlega, áður en auglýst er eftir umsóknum hverju sinni.
Reykjavík, 21. nóvember 2024